Reglur deildarinnar

MEISTARADEILD KS

Meistaradeild KS er mótaröð 8 móta með um hálfs mánaðar millibili frá miðjum febrúar fram í lok apríl þar sem keppt er í 8 greinum. Keppendur eru úrval bestu hestaíþróttamanna Íslands. Meistaradeild KS er dyggilega studd af Kaupfélagi Skagfirðinga.

Það sem gerir Meistaradeild í hestaíþróttum frábrugðna öðrum hestamótum og líklega fýsilegri kost fyrir almenning og fjölmiðla að fylgjast með er að: 

  • Meistaradeildin spannar langt tímabil, rúmlega 3 mánuði
  • Það loftar vel á milli móta sem gefur fjölmiðlum og þeim fjölmörgu sem fylgjast með Meistaradeildinni svigrúm til umfjöllunar og spámennsku um framvindu mála
  • Mótin fara fram á tímum sem gefa þeim óskipta athygli.
  • Mótin eru stutt og áhorfendavæn, hvert mót tekur eina kvöldstund og er einungishaldin innanhúss þar sem áhorfendur geta látið fara vel um sig fyrir utan skeiðdaginn.

Samþykktir fyrir Meistaradeild í hestaíþróttum.

1.gr.

Félagið heitir Meistaradeild KS (Meistaradeildin). Kt:  640218-1010. Heimili þess er heimilsfang starfandi gjaldkera.  

2. gr.

Félag þetta er ekki rekið í hagnaðarskyni og er markmið þess að efla hestaíþróttir og stuðla að markaðssetningu íslenska hestsins hérlendis og erlendis. 

Í samræmi við ofangreind markmið hyggst félagið vinna að eftirfarandi verkefnum:

1. Halda utan um og þróa Meistaradeildina með rekstri mótaraða fyrir eitt af fremstu knöpum hverju sinni.

2. Tryggja umfjöllun um deildina í helstu hestamiðlum landsmanna.

3. Tryggja öflugan stuðning fyrirtækja og einstaklinga við Meistaradeildina.

4. Beita sér fyrir öðru því sem samrýmist markmiðum Meistaradeildar KS og stjórn eða félagsfundur ákveður.

3. gr.

Félagsaðilar eru þau fyrirtæki og einstaklingar sem styrkja meistaradeildina með beinu fjárframlagi samkvæmt gildandi samningi sem og keppnislið og starfandi stjórn hverju sinni. Öðlast félagsaðilar full félagsréttindi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt styrktaraðila og keppnislið.

4.gr.

Félagsaðilar bera enga ábyrgð á skuldbindingum félagsins og ber félagið eitt ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til í nafni þess.

5.gr.

Stjórn félagsins skipa fimm manns. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Ásamt stjórn er einn fulltrúi knapa sem knapar skuli velja sjálfir fyrir ár hvert.

6.gr.

Allar meiriháttar ákvarðanir skulu ávallt teknar af meirihluta stjórnar. Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að boða fund ef tveir stjórnarmanna óska þess.

7.gr.

Stjórn félagsins ber að varðveita öll skjöl og gögn er geyma heimildir um störf félagsins, svo sem félagaskrá, bókhaldsgögn og bréf í samræmi við gildandi lög.

8.gr.

Stjórn félagsins boðar félagsfund eins oft og þurfa þykir. Stjórn félagsins skal boða fundi með minnst tveggja daga fyrirvara með tryggilegum hætti. Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað þ.a.e.s. allir liðsstjórar látnir vita.  Einfaldur meirihluti atkvæða skal ráða úrslitum allra mála á fundum félagsins.
Formaður eða staðgengill hans setur fund og lætur kjósa fundarstjóra, sem skal ganga úr skugga um að löglega hafi verið boðað til fundarins.  

9.gr.

Reikningsár félagsins skal vera frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. 

10.gr.

Liðsstjórar eru eigendur sinna liða.

LEIKREGLUR 

Orðskýringar: 

Hestaíþróttir; nær yfir flest allar keppnisgreinar tengdar íslenska hestinum. 

Hagsmunaaðilar; eru knapar, kostunaraðilar, áhorfendur og fjölmiðlar. 

1 FORM 

1.1 Meistaradeildin er einstaklings- og liðakeppni. 

1.2 Keppendur eru 40. 

1.3 Liðin eru 8 með 5 knöpum hvert, þrír knapar úr hverju liði keppa í hverri grein.

1.4 Lið getur óskað eftir því að skipa þjálfara en þá skal greiða sérstaklega fyrir hann.

1.5 Keppnisgreinar eru fjórgangur, gæðingalist, fimmgangur, tölt, slaktaumatölt, 150m skeið, gæðingaskeið og flugskeið. 

1.6 Lið getur á hverju tímabili kallað til knapa sem 3ja knapa utan liðs til keppni í einni grein sem kallaður verður villiköttur. Stig parsins teljast með í stigasöfnun liða. Stjórn skal samþykkja knapa. Knapi þessi getur einungis keppt fyrir eitt lið í einni grein hvert tímabil.

1.7 Neðsta lið í liðakeppninni fellur ár hvert.

1.8 Keppni fer fram í Svaðastaðahöllinni en staðsetning fyrir skeiðmót fer eftir aðstæðum hverju sinni.

 

2 STIG 

Árangur keppnisliða og einstaklinga er mældur í stigum. 

2.1 Í einstaklingskeppninni fá allir knapar stig. 1. sæti gefur 28 stig -  2. sæti 26 stig -  3. sæti 24 stig - 4. sæti 22 stig - 5. sæti 20 stig - 6. sæti 19/20 stig - 7. sæti 18 stig - 8. sæti 17 stig - 9. sæti 16 stig - 10. sæti 15 stig – 11.sæti 14 stig – 12.sæti 13 stig – 13.sæti 12 stig – 14.sæti 11 stig – 15.sæti 10 stig – 16.sæti 9 stig – 17.sæti 8 stig – 18.sæti 7 stig – 19.sæti 6 stig – 20.sæti 5 stig – 21.sæti 4 stig - 22.sæti 3 stig – 23.sæti 2 stig – 24.sæti 1 stig. Ef knapar eru jafnir deilast stig á þau sæti sem þeir lenda í. Þegar greinar án úrslita eru, er stigagjöf einstaklingskeppni líkt og í liðakeppni. Það er því einungis sami stigafjöldi 5 og 6 sæti í einstaklingskepninni þegar riðin eru B-úrslit, annars fær 6.sæti 19.stig.

2.2 Knapi sem safnar flestum stigum á keppnistímabili er sigurvegari deildarinnar o.s.frv. 

2.3 Í liðakeppninni eru stigin frá 1 til 28 og skilar sigurvegari keppnisgreinar 28 stigi til síns liðs. Sá sem er númer tvö í keppnisgrein skilar 26 stigum til síns liðs o.s.frv. 

2.4 Sjö bestu greinar af átta gilda til stiga í einstaklingskeppninni þannig að lakasta greinin er dregin frá hjá þeim knöpum sem keppa í öllum greinum. Sá knapi sem safnar flestum stigum eftir veturinn sigrar einstaklingskeppnina, 

2.5 Séu tveir eða fleiri knapar jafnir í efsta sæti sýna dómarar sæta röðun knapa. Ef knapar eru jafnir í öðru sæti en því fyrsta, deila þeir með sér sætinu. Hlutkesti ræður úthlutun verðlauna. Verði knapar jafnir í keppnisgrein skiptast stigin jafnt á milli þeirra og á það jafnt við um liðakeppnina og einstaklingskeppnina. Engu breytir ef keppendum er úthlutaður verðlaunagripur skv. uppkasti. Fari fram dómaraúrskurður falla stigin hins vegar eftir þeirri niðurstöðu. Verðlaunafé fylgir reglum um stig, þ.e. ef knapar deila með sér stigum deila þeir verðlaunafé einnig. 

2.6 Forkeppni er mikil list. Stigagjafir til liða ráðast af forkeppni.

2.7. Til er ákveðið skjal sem reiknar einstaklings og liðakeppni.

2.8 Knapi sem gerir ógilda sýningu eða hlýtur 0 í einkunn hlýtur hann 0 stig. Eins gildir um  keppendur í skeiði en ef sá knapi fær 0,0 sek. fyrir tíma hlýtur hann samt 0 stig.

2.9 Stigagjöf skal endurskoðuð fyrir hvert tímabil.

 

3 ÚRSKURÐUR UM FYRSTA SÆTI Í KEPPNISGREIN OG SAMANLÖGÐUM ÁRANGRI. 

3.1 Í keppnisgreinum þar sem niðurstaða byggist á spjaldadómum skal skorið úr um fyrsta sæti með sæta röðun dómara

3.2  Í flugskeiði eru tveir sprettir og vinnur sá sem hefur besta tíman, ef tveir eru jafnir vinnur sá sem hafði betri tíma úr fyrri spretti.

3.3 Ef tveir knapar eru jafnir í samanlagðri stigasöfnun eftir lokamót Meistaradeildar vinnur sá sem hefur unnið fleiri greinar. Ef knaparnir hafa jafn mörg gull ráða þá silfrin og ef þau eru jafn mörg þá bronsin o.sfrv. Sama regla er notuð um önnur sæti í deildinni.

3.4 Ef tvö lið eru efst og jöfn í samanlögðum stigum eftir lokamót Meistaradeildar vinnur það lið sem fleiri greinar vann í mótaröðinni, ef þau standa þá enn jöfn vinnur það lið sem oftar var í öðru sæti keppnisgreinar. 

4 VERÐLAUN 

4.1 Farandgripur er í einstaklingskeppninni. 

4.2 Efsta lið eftir keppnistímabil fær verðlaunagrip.

5 KEPPNISGREINAR OG REGLUR 

6.1 Keppt er eftir FIPO reglum í keppnisgreinum sem þær reglur ná yfir, tölti, slaktaumatölti, fjórgangi og fimmgangi. Horft er framhjá þeim annmarka að oftast er keppt á minni velli en gert er ráð fyrir í FIPO. Sérstakar reglur gilda um, gæðingafimi og flugskeið

6.2 Séu breytingar frá FIFE reglum leyfðar eða ákveðnar skal yfirdómari koma þeim upplýsingum á framfæri með skýrum hætti á knapafundi eða á annan sannanlegan hátt. 

6.3 Sami hestur má keppa í öllum greinum Meistaradeildar í hestaíþróttum. 

6.4 Sami hestur má koma fram með fleiri en einn knapa en þó einungis einn knapi í hverja grein.

6.5 Gæðingalist: Reglur um Gæðingalist LH gilda – Sjá nánar á lhhestar.is    

6.6 Flugskeið: Skeiðkeppni í gegnum reiðhöll. Sprettfærið er misjafnt eftir reiðhöllum. Tíminn er mældur með sjálfvirkum tímatökubúnaði og er útfærsla svipuð og í 100 m skeiði. 

Allir knapar mega fara tvo spretti, knapa er þó heimilt að sleppa seinni sprettinum ef hann vill.

7 REIÐMENNSKA

Dómarar geta gefið knöpum gul eða rauð spjöld eftir atvikum ef þeim finnst að knapar séu of grófir í sinni reiðmennsku. Stuðst er við viðmiðunarreglur FIPO. Jafnvel þótt fleiri en einn dómari gefi gult spjald fyrir ákveðið tilvik telst það eitt gult spjald í Meistaradeild KS. Fyrir hvert gult spjald umfram eitt á keppnistímabili verða 2 stig dregin af knapa í heildarstigasöfnun einstaklingskeppninnar. Ef knapi fær rautt spjald er honum vikið úr viðkomandi keppnisgrein og fær að auki í frádrátt 5 stig í heildarstigasöfnun einstaklingskeppninnar. Þetta á eingöngu við um þau atvik þegar knapi fær rautt spjald vegna grófrar reiðmennsku, en ekki í þeim tilfellum þegar rautt spjald er gefið af tæknilegum ástæðum t.d. ef fer úr braut eða riðið er of marga hringi o.s.frv. 

8.  KEPPENDUR / KNAPAR

8.1    Knapar sem taka þátt í Meistaradeild KS skulu vera fullgildir meðlimir í hestamannafélagi sem er í Landsambandi hestamanna. Þar sem Landsamband hestamanna er fullgildur aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ), gilda lög og reglur ÍSÍ er varða íþróttamenn um knapa Meistaradeildar í hestaíþróttum, þar með talin lög ÍSÍ um lyfjamál eins og þau gilda á hverjum tíma.

8.2   Liðseigandi velur sína knapa og leggur tillögur sínar til stjórnar. 

8.3  Lámarksaldur keppenda í Meistaradeild er 16 ára, 17 ára á árinu.

8.4  Það lið sem fær fæst stig ár hvert fellur.

9 Varanleg FORFÖLL KNAPA 

9.1 Varanlegt forfall. Vegna forfalls liðsmanns getur lið kallað til varaknapa fyrir fyrsta keppnismót deildarinnar. Forfall knapa í slíku tilfelli þarf að vera sannanlegt vegna varanlegra veikinda eða slyss. Ekki er leyfilegt að skipta út liðsmanni eftir fyrsta keppniskvöld.

10 DÓMSTÖRF 

10.1 Haft skal að leiðarljósi að velja hæfustu dómara sem völ er á fyrir hvert verkefni. 

10.2 Yfirdómari annast málefni dómara. Yfirdómari hefur vald til að víkja dómara frá keppni hvenær sem er ef honum finnst viðkomandi dómari hafa vikið frá faglegum gildum.

10.3 Knapar og lið hafa einn sólarhring til að kæra framkvæmd eða útreikninga keppnisgreinar. Að þeim tíma liðnum standa niðurstöður. Kærur sem berast að loknu móti fara á sameiginlegt borð stjórnar, mótsstjórnar og eins fulltrúa knaparáðs, sem verða að kynna niðurstöðu innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst. Einkunnir dómara eru ekki kæranlegar.

11 Úrtaka

11.1  Árlega ber stjórn Meistaradeildar að standa fyrir úrtöku að hausti, sem gefur einu liði keppnisrétt í Meistaradeild KS í hestaíþróttum.

11.2 Stjórn Meistaradeildar KS auglýsir eftir liðum og knöpum fyrir 1.desember ár hvert.

11.3 Í úrtöku ríða tveir aðilar úr hverju liði fimmgang og fjórgang. Úrtaka skal haldin í janúar/febrúar.

11.4 Einkunnir liðsmanna í báðum greinum eru lagðar saman. Það lið sem hlýtur hæstu samanlögðu einkunn hefur hlotið þátttökurétt í Meistaradeild KS.

11.5 Stjórn hverju sinni ákveður þátttökugjald í úrtöku.

12 Frestun

12.1  Stjórn skal hafa varadagsetningu þegar keppnisdagar eru gefnir út. Þessi dagsetning er þá útgefin til knapa ef fresta þarf keppni af óviðráðanlegum ástæðum.

12.2 Fresta skal með sólahrings fyrirvara.

13 Skráning

13.1 Skráning fer fram í gegnum skráningarkerfi sem kynnt er í upphaf tímabils.

13.2 Liðsstjórar sjá um að skrá liðsmenn sína fyrir hvert keppniskvöld

 13.3 Sé skráð of seint eða skipt er um hest/knapa fer knapi sjálfkrafa fyrstur í rásröð, nema í þeim greinum þegar um tímatöku er að að ræða.